Mikilvægi norrænnar samvinnu við stjórn Íslands

Norðurlöndin veita Íslandi mikilvægt pólitískt, efnahagslegt og samfélagslegt skjól og hjálpa til við stjórn landsins. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála Íslands þar sem Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði ræðir um niðurstöður rannsókna sinna við Boga Ágústsson fréttamann á RÚV og fyrrverandi formann Norrænafélagsins og Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði um samskipti Íslands við Norðurlöndin.
Í þættinum kemur fram að mikil andstaða hafi verið hér á landi í garð náinnar samvinnu við þjóðir heims. Ísland hafi hins vegar oft byrjað á því að opna landið yfir til hinna Norðurlandanna og þannig hafi Norðurlöndin verið eins konar hlið okkar inn í hinn stóra heim. Fyrst hafi Ísland til að mynda verið þátttakandi í sameiginlegum norrænum vinnumarkaði og fyrstu löndin sem Íslendingum var leyfilegt að ferðast til án vegabréfs hafi verið Norðurlöndin. Síðan hafi Ísland yfirfært þetta fyrirkomulag yfir á Evrópska efnahagssvæðið og Schengen.
Ísland hafi fylgst náið með þátttöku Norðurlandanna í samvinnu við önnur ríki Evrópu og tekið mið af henni við inngönguna í EFTA, EES og Schengen. Norðurlöndin hafi hjálpað Íslandi að ná betri samningum við Evrópusambandið í tengslum við inngönguna í EFTA, EES og Schengen. Góða samantekt á þættinum má finna hér.
This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.