Rússar skilja ekkert nema afl

 

Ríki á Vesturlöndum og nágrannaríki verði að taka hótanir Rússa alvarlega. Þar á meðal séu hótanir Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, um að Eystrasaltsríkin eigi að tilheyra Rússlandi sögu þeirra vegna. Geri menn það ekki gætu þeir staðið frammi fyrir sömu mistökum og í Úkraínu nú. Rússnesk stjórnvöld skilja ekki neitt annað en afl en hingað til hafa þau komist upp með allt.

Allt sem Pútín hefur gert; í Georgíu 2008, í Úkraínu 2014 og í dag í Úkraínu, hefur hann komist upp með. Hann hefur sagst ætla að gera þetta áður en hann grípur til aðgerða og svo framkvæmir hann þetta. Við á Vesturlöndum erum eingöngu að tala við okkur sjálf og höldum að við séum að ræða við leiðtoga sem hugsar og framkvæmir eins og við. Við verðum að fara að horfast í augu við það að rússnesk stjórnvöld skilja ekkert annað en afl, að þeim sé mætt af fullri hörku og með afli.

Í augnablikinu eru NATO-ríkin að draga línuna við sín landamæri og segja að það verði ekki liðið að það verði ráðist inn í NATO-ríki. Fyrirvarinn er þó sá að ef einhver ræðst á NATO-ríki þá þýði það ekki sjálfkrafa að öll NATO-ríkin bregðist við þeirri innrás. Ef Rússland ræðst inn í Litáen þá þýðir árás á eitt ríki árás á þau öll en það þarf að virkja fimmtu grein sáttmálans til þess að ríkin komi til aðstoðar og verjist innrásinni. NATO þarf að tala mjög skýrt núna um að fimmta grein Atlantshafssáttmálans verði virkjuð ráðist utanaðkomandi aðili á aðildarríki. Úr samtali við Baldur Þórhallsson í Vikulokin á Rás 1.

 

Vel skipulögð og sviðsett atburðarás

Pútín veður úr einu í annað og fer með staðlausa stafi þegar kem­ur að sögu Úkraínu. Hannbýr alltaf bara eitt­hvað nýtt til. Einn dag­inn er það að Úkraína hafi eng­an grund­völl til að vera sjálf­stætt ríki, svo að all­ir íbú­ar þar séu í raun og veru Rúss­ar og einnig að þeir séu núna und­ir fas­ista­stjórn. Það er alltaf eitt­hvað nýtt búið til.

Meira um það hér.

Viðurkenning Pútín á sjálfstæði Donetsk og Luhansk

Nú er stóra spurningin hvort að Pútín láti staðar numið með viðurkenningu á sjálfstæði Donetsk og Luhansk. Hann gæti látið gott heita og hætt við fyrirhugaða innrás í önnur héruð Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld létu sér nægja að viðurkenna sjálfstæði héraðanna Abkasíu og Suður-Ossetíu í Georgíu árið 2008. Það er að vísu meira í húfi fyrir Rússland í Úkraínu en Georgíu. Rússnesk stjórnvöld telja að að sér stafi bein hernarðarleg ógn af bandalagi Úkraínu með vestrænum ríkjum.
Það má einnig bera átökin í Úkraínu saman við eldri sögulega atburði. Í september árið 1938 samþykktu Bretland og Frakkland auk Ítalíu innlimum Súdetahéraðana í Tékkóslóvakíu í Þýskaland Hitlers. Meirihluti íbúa héraðanna var af þýsku bergi brotin. Líkja má innlimun Súdetahéraðana í Þýskaland við innlimun Krímskaga í Rússland og yfirtöku rússneskra hersveita og aðskilnaðarsinna á héruðunum Donetsk og Luhansk árið 2014. Vestræn ríki hafa mótmælt hástöfum þessari yfirtöku og sett á viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Þær hafa hins vegar engan veginn dugað til að rússnesk stjórnvöld drægju yfirtökuna og herlið sitt til baka. Nú hafa héruðin verðið lýst sjálfstæð ríki. Frá upphafi refsiaðgerðanna var ljóst að þær væru ekki nógu umfangsmiklar til að skila þeim árangri að rússnesk stjórnvöld létu héruðin af hendi. Refsiaðgerðunum var helst ætlað að koma í veg fyrir frekari landvinninga Rússa í Úkraínu. Það er ekki heldur að skila árangri frekar en samþykki þess að Þýskaland yfirtæki Súdetahéruðin á sínum tíma og létu þar við staðar numið. Í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar munu aðildarríki NATO og ESB enn á ný mótmæla harðlega og setja á frekari refsiaðgerðir. En þær munu líklega engu skila frekar en fyrri daginn. Ríkin gætu viljað eiga umfangsmiklar þvinganir inni sem tromp upp í erminni ef Rússar láta verða af allsherjar innrás í Úkraínu.
Og svo getum við haldið áfram með samanburðinn: Ráðist Rússlands af öllu afli inn í Úkraínu má líka því við yfirtöku Þýskalands nasista á því landsvæði sem eftir var af Tékkóslóvakíu í mars 1939. En þá viðurkenndi Þýskaland Slóvakíu (sem var hluti af Tékkóslóvakíu) sem sjálfstætt ríki og gerði að leppríki. Einnig tók Þýskaland yfir afganginn af landinu. Bretland og Frakkland aðhöfðust ekkert. Þau reyndu áfram að koma í veg fyrir allsherjarstríð í Evrópu. Þetta er er raun svipuð stefna og aðildaríki NATO hafa í dag gagnvart yfirvofandi innrás Rússa í Úkraínu. Þau ætla ekki að verja Úkraínu en munu senda þeim vopn og mótmæla innrás hástöfum.
Það er alltaf erfitt að bera saman sögulega atburði og endalaust má deila um samanburðinn. Auk þess sem sagan endurtekur sig að sjálfsögðu ekki sjálfkrafa. Sagan er mannanna verk sem og túlkun hennar á hverjum tíma fyrir sig.

Tíu atriði í tengslum við yfirvofandi innrás Rússlands í Úkraínu

Stundum er ekki öll sagan sögð eða sögunni snúið á hvolf.
Eftirfarandi eru tíu atriði í tengslum við yfirvofandi innrás Rússlands í Úkraínu:
1. Við upphaf endaloka kalda stríðsins voru aðildarríki NATO, fyrir utan Ísland, andvíg því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Þau óttuðust að Sovétríkin myndu líta á sjálfstæði þeirra sem beina ögrun við sig. Sjálfstæði þeirra myndi ógna stöðugleika í Evrópu þá um stundir sem og í framtíðinni.
2. Í kjölfar falls Sovétríkjanna árið 1991 sóttust nær öll ríki í mið og austur Evrópu sem höfðu verið undir járnhæl Moskvu eftir aðild að NATO. Ríki NATO, Bandaríkin þar á meðal, voru í fyrstu mjög treg til þess að veita þeim aðild. Þau töldu að í Kreml yrði litið á aðild þeirra að varnarbandalagi vestrænna ríkja sem ögrun. Þau voru heldur ekki viljug til þess að skuldbinda sig til þess að verja þessi ríki. Þau vildu ekki lenda í stríði við Rússland. Eftir gríðarlega mikinn þrýsting ríkjanna í mið og austur Evrópu ákváðu ríki NATO að veita þeim aðild - fyrst Ungverjalandi, Tékklandi og Póllandi árið 1999. Því næst kom fjöldi ríkja inn í bandalagði árið 2004.
3. Áfram héldu ný ríki í austri að sækjast eftir aðild að NATO. Ríki NATO stóðu á bremsunni í fyrstu en gáfu eftir að lokum. Dyr bandalagsins ættu að standa opnar fyrir lýðræðisríkjum í Evrópu.
4. Það gleymist stundum í umræðunni um hugsanlega innrás Rússlands í Úkraínu að það er Úkraína sem er að sækjast eftir aðild að NATO. Ríki NATO vilja hins vegar ekki leyfa landinu að ganga inn í bandalagið. Þau hafa einnig komið í veg fyrir að Georgía gangi í bandalagið. Vissulega höfðu aðildarríki NATO aðra stefnu árið 2008 en hún kom til eftir mikinn þrýsting frá þessum ríkjum að fá að ganga í bandalagið og stefnubreytingu í Washington. Mörg aðildarríki höfðu miklar efasemdir um aðild þeirra að bandalaginu. Þau óttuðust að þau gætu dregist inn í stríðsátök þessara ríkja við Rússland. Aðild þeirra að NATO myndi ógna stöðugleika í Evrópu.
5. Aðildarríki NATO og NATO sem stofnun hafa ekki haft frumkvæði að stækkun bandalagsins. Frumkvæðið að stækkun hefur komið frá þeim ríkjum sem nú hafa fengið aðild að bandalaginu.
6. Ráðamenn í Kreml hafa litið á stækkun NATO sem ögrun við öryggi Rússlands og pólitísk og efnahagsleg ítök sín í næstu nágrannaríkjum. Þetta kemur ekki á óvart.
7. NATO hefur engin áform um að ráðast inn í Rússland en rússneskir ráðamenn óttast að missa áhrif og völd í sínu næsta nágrenni gangi Úkraína og Georgía í NATO. Þeir telja einnig að aðild Úkraínu að NATO ógni öryggi Rússlands. Það má ekki gera lítið úr þeirri ógn sem þeir upplifa. Hana verður að skilja og viðurkenna til að hægt sé að leysa þessar deilur.
8. Ef eitthvað er má saka ríki NATO um að hafa ekki staðið á bremsunni gegn stækkun NATO – sérstaklega þegar kemur að þrýstingi frá Georgíu og Úkraínu að ganga í bandalagið.
9. En þá er stóra spurningin hvort að stjórnvöld í þessum ríkjum eigi sjálf að ráða utanríkisstefnu sinni eða hvort að láta eigi hana eftir ráðamönnum í Moskvu.
10. Að lokum, aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að öryggi þeirra sjálfra sé best tryggt með því að veita Úkraínu og Georgíu ekki aðild að bandalaginu eins og stendur. Þessu hafa rússnesk stjórnvöld þegar komið til leiðar. Rússneskum stjórnvöldum hefur í fyrsta skiptið eftir fall múrsins tekist að koma í veg fyrir inngöngu nýrra ríkja í NATO. Það er NATO sem hefur gefið eftir. Úkraína sækist enn eftir aðild.

Hvenær virka viðskiptahindranir best?

Viðskiptaþvinganir og aðrar refsiaðgerðir gegn ríkjum skila sjaldnast árangi. Það er helst að þær skili árangi ef þeim er beitt gegn litlum ríkjum í rómönsku Ameríku eða Afríku. Stór ríki eins og Rússland og Kína láta sjaldnast undan refsiaðgerðum. Fjögur atriði skipta mestu þegar kemur að því að viðskiptahindranir og aðrar refsisaðgerðir virki.
1. Skýr krafa þarf að vera til staðar um hvað ríkið sem beitt er þvingunum þarf að gera til að þeim verði aflétt. Yfirleitt þýðir lítið að krefjast þess að valdaskipti verði í ríkinu. Miklu líklegra til árangur er til dæmis að krefjast þess að ríki hætti auðgun úrans eins og í tilfelli Írans.
2. Meiri líkur eru á að þvinganir virki ef vinveitt ríki er beitt þeim. Vinveitt ríki eiga oftast í meiri efnahagslegum og pólitískum samskiptum. Það er því meira í húfi fyrir vinveitta ríki sem beitt er refsiaðgerðum. Gott dæmi er þegar Bretar og Frakkar réðust inn í Egyptaland í Suez-deildunni. En Bandaríkin voru á móti innrásinni og hótuðu að beita vinaþjóð sína Breta refsiaðgerðum drægju þeir ekki herlið sitt til baka. Bretar gáfu eftir.
3. Viðskiptaþvinganir þurfa að leiða til mikils fjárhagslegs tjóns. Ef skaðinn er lítill virkar þvinganir ekki. Auk þessa er miklu áhrifaríkara að beita fjármálageira ríkja þvingunum heldur en að sniðganga einstaka vörutegundir. Þegar vörur eru sniðgengar færast viðskiptin einfaldlega yfir á svarta markaðinn.
4. Öflug bandalag ríkja þarf að standa að refsiaðgerðunum. Viðskiptaþvinganir sem Bandaríkin standa að ein og sér eru ólíklegri til að skila árangi heldur þvingandir sem Bandaríkjamenn standa að með bandalagsríkjum sínum. Því fleiri ríki sem standa að refsiaðgerðum því meiri líkur eru að þær skili árangi.
Fór ítarlega yfir viðskiptahindranir og stöðu Íslands í því sambandi á Morgunvaktinni. Hefst á 37 mínútu.

Átökin í Úkraínu

Rússland reynir að auka ítök sín í Úkraínu: „Rúss­neskur her­afli hefur nær um­kringt Úkraínu: norðan megin við landa­mærin við Belarus og Rúss­land, austan megin á yfir­ráða­svæðum Rúss­lands í landinu, vestan megin á landa­mærunum við Transnistiu og í suðri á Krím­skaga. Mark­mið Rúss­lands er að ná öllu landinu á sitt vald en að minnsta kosti að ná að tengja héruðin, Do­netsk og Luhansk, sem þau ráða yfir við Krím­skaga (sjá mynd). Land­fræði­leg tenging við Krím­skaga skiptir sköpum fyrir getu Rúss­lands til að ráða yfir skaganum í fram­tíðinni,“

Kafaldsmyglingur: Staða smáríkja árið 2022

Það eru viðsjárverðir tímar fyrir smáríki í heiminum í dag. Staða smáríkja og veikra miðlungsstórra ríkja er líklega ótryggari en nokkru sinni frá tímum kalda stríðsins. Þetta á við um landvarnir, öryggismál eins og aðgengi að bóluefni í heimsfaraldri og netógnir eins og falsfréttir og netárásir. Þetta kemur fyrst og fremst til vegna valdagráðugra ráðamanna stórra ríkja sem vilja styrkja stöðu sína í heiminum. Það geta þeir gert þar sem Bandaríkin eru ekki eins viljug og áður að halda verndarhendi yfir litlum bandalagsríkjum sínum og Evrópusambandið er ekki nægjanlega öflugt til að láta verulega til sín taka. Veikari Bandaríki og veikara Evrópusamband þýðir vanmáttugri smáríki.
Eins og við þekkjum úr sögunni er litlum ríkjum og sjálfsstjórnarsvæðum enn á ný ógnað af valdabrölti ríkja sem vilja styrkja efnahags- og hernaðarlega stöðu sína. Skýrustu dæmin síðustu misserin er innrás Aserbaísjan í Armeníu þar sem þúsundir létu lífið, hótun Rússlands um að ráðast inn í Úkraínu (en Rússar hafa þegar hluta landsins á valdi sínu og talið er að um 14 þúsund manns hafa látið lífið), tilraun til valdaráns með stuðningi Rússlands í Svartfjallalandi, markviss viðleitni Serba að berja undir sig stærra landsvæði í Bosníu, afnám lýðræðis og grundvallarmannréttinda í Hong Kong, yfirtaka Talibana í Afganistan og átök Sádi-Arabíu og Íran í Jemen.
Einnig starfar litum ríkjum ógn af þeirri stefnu kínverska stjórnvalda að auka ítök sín í heiminum. Þetta á einkum við í litlum nágrannaríkjum Kína en einnig í Afríku og á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Ef ríkin fara svo ekki að vilja Kína þá geta þau þurft að þola útlokun og viðskiptaþvinganir sem geta haft alvarlegar afleiðingar eins og raunin var með Noreg á sínum tíma (eftir að norska Nóbelsverðlaunanefndin veitti Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels árið 2010).
Litlum ríkjum og veikburða stórum ríkjum stafar líka ógn af nýjasta vopni Rússlands og Tyrklands sem er að senda flóttamenn út í opin dauðann til að ná sínu fram í deilum við Pólland og Grikkland og Evrópusambandið. Rússnesk stjórnvöld stunda auk þessa skipulegan hernað á netinu gegn skilgreindum óvinveittum stjórnvöldum þar sem dreift er falsfréttum einkum og sér í lagi í Austur-Evrópu. Leiða má líkum að því að þúsundir manna hafi látið lífið í heiminum vegna þáttar rússneskra stjórnvalda í að deila falsfréttum um bóluefni í yfirstandandi heimsfaraldri.
Einnig hefur heimsfaraldurinn sýnt fram á að lítil ríki byggja alfarið á velvild stórra ríkja þegar kemur að aðgengi að bóluefni – eina undantekningin er Ísrael vegna sterkrar stöðu lyfjafyrirtækja í landinu.
Sú spurning hlýtur að vakna hvað sé til ráða fyrir lítil ríki eins og Ísland, Armeníu og Svartfjallaland, sjálfsstjórnarhéruð eins og Grænland og Færeyjar og miðlungsstór ríki eins og Pólland og Úkraínu.
Sterkasta vopn veikburða ríkja er að afla sér bandamanna sem hafa burði til að tryggja öryggi þeirra. Fagrar yfirlýsingar vinaþjóða á tillidögum eru gagnslausar þegar kemur að landvörnum, netöryggi eða aðgangi að bóluefni þegar áfall ríður yfir og stjórnvöld í hverju og einu ríki huga fyrst og fremst að velferð eigin borgara. Á friðartímum þurfa lítil ríki að tryggja sér pólitískt (hernaðarlegt og diplómatísk), efnahagslegt (aðgengi að mörkuðum) og samfélagslegt (eins og aðgengi að nýjustu tækni og vísindum) skjól. Þau þurfa að ganga í hernaðarbandalög til að tryggja landvarnir og vera með samninga sem kveða á um aðstoð vegna netógna og farsótta. Að öðrum kosti er hætt á að þau einangrist og fái ekki þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. Skortur lengi framanaf á bóluefni í Nýja-Sjálandi er gott dæmi um þetta sem og ítök kínverskra stjórnvalda í landinu.
Vandinn verður fyrst alvarlegur þegar enginn er tilbúinn að skuldbinda sig til að veita litlu ríki skjól - svo ekki sé nú talað um ef að lítið ríki er á svæði sem stórt ríki telur vera yfirráðasvæði sitt. Þá fer fyrir Armeníu, Úkraínu og Georgíu eins og fór. Um leið og það dregur úr vilja Bandaríkjanna að standa við bakið á litlum lýðræðisríkjum þá færa stór ríki eins og Kína, Rússland og Tyrkland sig upp á skaftið. Evrópusambandið hefur ekki burði til að taka við hlutverki Bandaríkjanna.
Öryggi Eystrasaltsríkjanna er tryggt vegna aðildar þeirra að NATO og aðgangs að bóluefni vegna aðildar þeirra að Evrópusambandinu. Landvarnir Íslands eru tryggðar með aðildinni að NATO og öryggi landsmanna er tryggara vegna umfangsmikillar alþjóðlegrar samvinnu stjórnvalda um netöryggismál. Öryggi Íslendinga er einnig tryggara vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu ekki bara vegna óhefts aðgangs að einum stærsta markaði heims heldur vegna velvilja aðildarríkja ESB að veita Íslandi bóluefni í gegnum EES-samstarfið. Það er hins vegar veik staða fyrir lítið ríki að þurfa að byggja á velvild annarra þegar mikið liggur við.
Í Evrópu er ákveðinn vandi falinn í því að stóru ríkin Þýskaland og Frakkland eru ekki tilbúin að skuldbinda sig til að veita smærri ríkjum álfunnar skjól nema innan Evrópusambandsins. Aðild lítils ríkis að sambandinu veitir að vísu umfangsmeira efnahagslegt og samfélagslegt skjól en þekkist í heiminum. Aðgangur lítilla ríkja að bóluefni á vegum Evrópusambandsins er gott dæmi um þetta. Einungis sjálfsstjórnarsvæði eins og Grænland og Færeyjar njóta tryggara skjóls. Fórnarkostnaðurinn er að þau eru ekki sjálfstæð ríki heldur hluti af Danmörku.
Bandaríkin og Evrópusambandið með Þýskaland og Frakkland innanborðs eru helstu skjólsveitendur lítilla lýðræðisríkja í heiminum. Ef Bandaríkin heykjast á því að styðja við bakið á þeim og Evrópusambandið eykur ekki styrk sinn til að koma þeim til aðstoðar eru þessi litlu lýðræðisríki í vanda stödd. Afleiðingarnar verða að ítök Kína og Rússlands í heiminum munu aukast. Það mun þrengja stöðu Bandaríkjanna og ríkja Evrópusambandsins og allra þeirra sem tala fyrir lýðræði og mannréttindum.
Enn og aftur eiga smáríki allt undir þeim ákvörðunum sem teknar eru í stórum ríkjum. Lítil ríki geta eigi að síður fylgt liði með valdablokkum sem tala fyrir lýðræði og mannréttindum og látið til sín taka í samstarfi með þeim. Það að taka gylliboðum frá voldugum ríkjum sem ekki virða lýðræði, mannréttindi, sjálfstjórn og landamæri getur reynst dýrkeypt.
Áramótahugleiðing.

Caves of Hella

Are you, a family member, or a friend, traveling to Iceland for the holiday season?
Make sure to stop by at the Caves of Hella exhibition for a guided tour. This is a unique experience where people can listen to the history of these old caves in the southern region of Iceland, explore the mysterious and beautiful surroundings, and enjoy some Icelandic delicacies for a fair price following the tour. Recommended for all age groups!

 

 

More information at Caves of Hella website.

Conference on Small States Big Powers

Recalling a seminar organised earlier this winter in Lisbon, Portugal. The purpose of the seminar was to continue the facilitation of a forthcoming co-edition on relations between European small states and other big powers.

The seminar was held at the Institute of National Defence and resulted in an a fruitful exchange and academic discussions on small states and their high relevance to the study of international relations.

 

 

The outcome of the seminar will be articulated in the chapters of the forthcoming book.

Small States and big powers: Portugal and Iceland's foreign relations

From a conference held in Lisbon, Portugal - Small States and big powers: Portugal and Iceland's foreign relations. The seminar was part of ongoing work for a co-edition with dr. Alice Cunha, researcher at the Instituto Portuges de Relacoes Internacionais (IPRI) on Portugal and Iceland's foreign relations. Stay tuned for this interesting addition to the study of small states!