Stundum er ekki öll sagan sögð eða sögunni snúið á hvolf.
Eftirfarandi eru tíu atriði í tengslum við yfirvofandi innrás Rússlands í Úkraínu:
1. Við upphaf endaloka kalda stríðsins voru aðildarríki NATO, fyrir utan Ísland, andvíg því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Þau óttuðust að Sovétríkin myndu líta á sjálfstæði þeirra sem beina ögrun við sig. Sjálfstæði þeirra myndi ógna stöðugleika í Evrópu þá um stundir sem og í framtíðinni.
2. Í kjölfar falls Sovétríkjanna árið 1991 sóttust nær öll ríki í mið og austur Evrópu sem höfðu verið undir járnhæl Moskvu eftir aðild að NATO. Ríki NATO, Bandaríkin þar á meðal, voru í fyrstu mjög treg til þess að veita þeim aðild. Þau töldu að í Kreml yrði litið á aðild þeirra að varnarbandalagi vestrænna ríkja sem ögrun. Þau voru heldur ekki viljug til þess að skuldbinda sig til þess að verja þessi ríki. Þau vildu ekki lenda í stríði við Rússland. Eftir gríðarlega mikinn þrýsting ríkjanna í mið og austur Evrópu ákváðu ríki NATO að veita þeim aðild - fyrst Ungverjalandi, Tékklandi og Póllandi árið 1999. Því næst kom fjöldi ríkja inn í bandalagði árið 2004.
3. Áfram héldu ný ríki í austri að sækjast eftir aðild að NATO. Ríki NATO stóðu á bremsunni í fyrstu en gáfu eftir að lokum. Dyr bandalagsins ættu að standa opnar fyrir lýðræðisríkjum í Evrópu.
4. Það gleymist stundum í umræðunni um hugsanlega innrás Rússlands í Úkraínu að það er Úkraína sem er að sækjast eftir aðild að NATO. Ríki NATO vilja hins vegar ekki leyfa landinu að ganga inn í bandalagið. Þau hafa einnig komið í veg fyrir að Georgía gangi í bandalagið. Vissulega höfðu aðildarríki NATO aðra stefnu árið 2008 en hún kom til eftir mikinn þrýsting frá þessum ríkjum að fá að ganga í bandalagið og stefnubreytingu í Washington. Mörg aðildarríki höfðu miklar efasemdir um aðild þeirra að bandalaginu. Þau óttuðust að þau gætu dregist inn í stríðsátök þessara ríkja við Rússland. Aðild þeirra að NATO myndi ógna stöðugleika í Evrópu.
5. Aðildarríki NATO og NATO sem stofnun hafa ekki haft frumkvæði að stækkun bandalagsins. Frumkvæðið að stækkun hefur komið frá þeim ríkjum sem nú hafa fengið aðild að bandalaginu.
6. Ráðamenn í Kreml hafa litið á stækkun NATO sem ögrun við öryggi Rússlands og pólitísk og efnahagsleg ítök sín í næstu nágrannaríkjum. Þetta kemur ekki á óvart.
7. NATO hefur engin áform um að ráðast inn í Rússland en rússneskir ráðamenn óttast að missa áhrif og völd í sínu næsta nágrenni gangi Úkraína og Georgía í NATO. Þeir telja einnig að aðild Úkraínu að NATO ógni öryggi Rússlands. Það má ekki gera lítið úr þeirri ógn sem þeir upplifa. Hana verður að skilja og viðurkenna til að hægt sé að leysa þessar deilur.
8. Ef eitthvað er má saka ríki NATO um að hafa ekki staðið á bremsunni gegn stækkun NATO – sérstaklega þegar kemur að þrýstingi frá Georgíu og Úkraínu að ganga í bandalagið.
9. En þá er stóra spurningin hvort að stjórnvöld í þessum ríkjum eigi sjálf að ráða utanríkisstefnu sinni eða hvort að láta eigi hana eftir ráðamönnum í Moskvu.
10. Að lokum, aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að öryggi þeirra sjálfra sé best tryggt með því að veita Úkraínu og Georgíu ekki aðild að bandalaginu eins og stendur. Þessu hafa rússnesk stjórnvöld þegar komið til leiðar. Rússneskum stjórnvöldum hefur í fyrsta skiptið eftir fall múrsins tekist að koma í veg fyrir inngöngu nýrra ríkja í NATO. Það er NATO sem hefur gefið eftir. Úkraína sækist enn eftir aðild.