Alvarlegur boðaður bannlisti

Við megum ekki sofna á verðinum og gera lítið úr því að blaðamenn og fræðimenn séu settir á bannlista.
Eitt er að vestræn og rússnesk stjórnvöld skiptist á diplómatískum refsiaðgerðum með því að setja stjórnmálamenn á bannlista annað þegar fræðimenn, blaðamenn og fólk sem tekur þátt í þjóðfélagsumræðunni er sett á bannlista.
Tilgangurinn með bannlistanum er miklu víðtækri en eingöngu að meina fólki landvist í Rússlandi. Markmiðið með listanum er að fæla fræðimenn og blaðamenn frá því að fjalla á gagnrýnan hátt um ráðamenn í Kreml. Vonast er til að bannlistinn og sú ógn sem felst í því að verða hugsanlega settur á hann leiði til þess að menn fari mjúkum höndum um stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu.
Níu Íslendingar
Morgunblaðið í ágætri frétt veltir fyrir sér hvaða Íslendingar gætu hugsanlega verið á bann­listanum sem rúss­neska ut­an­rík­is­ráðuneytið hefur greint frá að verði samþykktur í Dúmunni fljótlega. Fram hefur komið að á listanum séu 9 Íslend­ing­ar, 16 Norðmenn, 3 Fær­ey­ingar og 3 Græn­lend­ingar. Mér finnst aukaatriði hvort að ég sé á þessum lista (eins og Morgunblaðið telur að gæti verið) eða ekki. Það mikilvæga í málinu er þessi tilraun til að draga úr frelsi fjölmiðla og fræðimanna að tjá sig um framferði rússneskra stjórnvalda.
Hingað til hafa rússnesk stjórnvöld nær eingöngu sett stjórnmálamenn og einstaka yfirmenn eða embættismenn í herjum Vesturlanda á þennan bannlista sinn sem svar við bannlistum vestrænna ríkja á rússenska stjórnmálamenn og fólk úr viðskiptalífi Rússlands.
Takmörkun fræðilegar umræðu og frjálsra skoðanaskipta
Það er hart sótt að frelsi fjölmiðla og vísindum þessa dagana með falsfréttum og árásum stjórnvalda víðsvegar um heiminn. Við megum ekki láta sem svo að bannlisti Rússlands sé einfaldlega ekkert mál. Bannlistinn eru hluti af herferðinni að takmarka fræðilega umræðun, frjálsa fjölmiðlun og frjáls skoðanaskipti.

Sjá frétt morgunblaðsins um málið hér.

Sjá bannlista Rússa í Úkraínu stríðinu hér.

A Small State's Campaign to Get Elected to the UNSC: Iceland’s Ambitious Failed Attempt

You can now find one of my latest publications, co-authored with Jóna Sólveig Elínardóttir and Anna Margrét Eggertsdóttir, in an open-access format here.

We conclude that the decision to run for a seat and the core message of the campaign was largely based on the quest to enhance Iceland’s status among international actors. However, the country’s lack of resources, limited international engagement and domestic debate about the candidacy became a hindrance. Iceland succeeded in using its smallness to build good momentum for its candidacy but in the end it failed due to weaknesses associated with its small size and its lack of contributions, competence and ideational commitment in the UN.

Munu hörð viðbrögð Rússlands við væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO beinast að Íslandi?

Ísland þarf þegar í stað að hefja undirbúning hugsanlegra refsiaðgerða - allt bendir til aðildarumsókna fyrir júnílok. 
Ísland berskjaldað
Ráðamenn í Kreml hafa hótað hörðum viðbrögðum sækist Finnland og Svíþjóð eftir aðild að NATO. Ríkisstjórnir landanna óttast þau svo mjög að þær gætu hætt við aðildarumsókn. Refsiaðgerðir Rússlands munu að mestu snúa að ríkjunum tveimur en þær gætu líka beinst að Íslandi og öðrum aðildarríkjum NATO. Auk þess að það eitt og sér að Ísland er eitt Norðurlandanna getur leitt til refsiaðgerða. Hér skiptir mestu máli fyrir Ísland sem er minnsta aðildarríki NATO, herlaust og án fastar viðveru varnarliðs að vera ekki veikasti hlekkurinn í varnarbandalaginu. Sérstaklega er mikilvægt að huga að netöryggi, öryggi sæstrengja og helstu stofnana þjóðfélagsins nú í aðdraganda ákvörðunar Svía og Finna. Mikilvægt er að Ísland taki þessi mál þegar í stað upp við bandalagsríki sín til að styrkja varnir landsins.
Styrkjast eða veikjast varnir Norðurlandanna?
Til langs tíma litið þá myndi innganga ríkjanna í NATO styrkja varnir allra Norðurlandanna. Þau eru líklegri til að tala einni röddu í varnarmálum og geta í sameiningu brugðist við framtíðar ógnum hvort sem þær koma frá Rússlandi eða Kína. Samvinna Norðurlandanna í varnarmálum myndi einnig styrkjast. Varnarsamvinna ríkjanna er hins vegar líkleg til að fara í vaxandi mæli fram innan NATO. Hvaða áhrif það mun hafa á norræna varnarsamvinnu á vettvangi Norðurlandaráðs er erfitt að meta í augnablikinu.
Hlutleysi ríkjanna
Forystufólk jafnaðarmanna sem heldur um stjórnartaumana í Finnlandi og Svíþjóð og hingað til hefur verið mótfallið aðild að varnarbandalaginu er að snúast hugur. Mið og hægri flokkar í löndunum sérstaklega í Svíþjóð hafa af vaxandi þunga talað fyrir aðild að bandalaginu á síðustu árum. Löndin eiga í náinni varnarsamvinnu við NATO sem og Bandaríkin en hafa hingað til talið að hlutleysi nýtist best til að tryggja stöðugleika í norður Evópu. Hlutleysi hafi komið í veg að Svíþjóð hafi dregist inn í stríðsátök í meira en 200 ár og Finnland lent austan megin járntjalds eftir síðari heimsstyrjöldina.
Finnland og Svíþjóð yrðu í sömu stöðu og Úkraína
Ástæðan fyrir stefnubreytingu jafnaðarmanna er einföld. Rússland virðir ekki lengur landmæri nágrannalanda sinna og hikar ekki við að ráðast inn í þau. Engin veit takmörk útþennslustefnu Pútíns og hann hefur gefið í skyn að Finnlandi eigi að tilheyra Rússlandi. Ríki sem ekki eiga aðild að NATO eru í veikari stöðu gagnvart Rússlandi og mun líklegra er að á þau verði ráðist en aðildaríki bandalagsins. Ráðist Rússland inn í Finnland og Svíþjóð eru þau líkleg til að lenda í sömu stöðu og Úkraína. Þau myndu fá móralskan stuðning og vopn frá Vesturlöndum en NATO og aðildarríki þess myndu ekki verja ríkin. Það yrði þrautin þyngri fyrir þessi ríki að verja sig sjálf gegn kjarnorkuveldinu Rússlandi. Þannig mun aðildin að NATO draga úr líkum þess að Rússland ráðist á þau og auka stöðugleika á Eystrasaltinu og Norðurlöndunum. Fæling er lykilhugtakið í stefnumótunni sem nú á sér stað, þar er að fæla ráðamenn í Kreml frá því að ráðst til atlögu.
Að sama skapi þarf ríkisstjórn Íslands nú að huga að því að fæla ráðamenn í Kreml frá því að láta refsiaðgerðir bitna sérstaklega á okkur sæki Finnland og Svíþjóð um inngöngu í NATO á næstu vikum.

Leikur Framsóknarflokkurinn tveimur skjöldum eða er um raunverulega stefnubreytingu að ræða?

Forystufólk Framsóknarflokksins hefur kallað eftir breytingum á stjórnarstefnunni í málaflokkum sem hafa verið mjög umdeildir í samfélaginu. Kallað er eftir því að sjávarútvegurinn og bankar greiði mun hærra hlutfall af arði sínum í sameiginlega sjóði landsmanna. Og nú síðast upplýsir ráðherra bankamála að hún hafi alla tíð verið andvíg þeirri leið sem farin hafi verið við sölu á hlut ríkissins í Íslandsbanka. Hún telur söluna hafa misheppnast hrapalega og að fjármálaráðherra eigi að axla ábyrgð á henni. Í raun er hún að kalla eftir afsögn ráðherrans, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem gæti þýtt stjórnarslit. – Þessi áköll um stefnubreytingar og að ráðherra samstarfsflokks axli lagalega og pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum eru athyglisverð einkum í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur setið í 5 ár, að undangenginni gerð tveggja stjórnarsáttmála, og að Framsóknarflokkurinn fer með bankamál í ríkisstjórninni. Framsóknarflokknum hefði verið í lófa lagið að hafa áhrif á þessa þrjá þætti stjórnarstefnunnar, það er aukna skattheimtu á sjávarútveginn og bankana og sölu Íslandsbanka. - Sú spurning hlýtur að vakna hvað vakir fyrir Framsóknarflokknum. Þrennt kemur helst til greina. Í fyrsta lagi að flokkurinn hafi orðið undir í valdataflinu við ríkisstjórnarborðið og telji að við það verði ekki unað lengur. Í öðru lagi að um sé að ræða áherslubreytingu hjá flokknum eða að honum hafi einfaldlega snúist hugur í þessum málaflokkum. Í þriðja lagi að þetta sé einungis lýðskrum til þess fallið að þyrla ryki í augu kjósenda fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. – Að þessu sögðu er mikilvægt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn er annar af áhrifmestu stjórnmálaflokkum landsins og hefur verið það allt frá stofnun. Síðustu hálfa öldina hefur Framsóknarflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 39 ár. Flokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana í sjávarútvegs- og bankamálum á mikilvægum tímamótum í þessum málaflokkum, þar er þegar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var komið á og bankarnir einkavæddir. – Framsóknarflokknum er í lófa lagið að ýta kröftuglega eftir þessum áherslum sínum á stjórnarheimilinu sem að hann gæti verið að gera með þessum afdráttalausa málflutningi nema að hann sé að stunda lýðskrum. Næstu misseri munu skera úr um þetta. Í augnabliknu þarf hver að dæma fyrir sig.

Meira hér:

Túlka megi orð Lilju sem svo að hún kalli eftir afsögn fjármálaráðherra

Ekki hægt að líta á þetta öðruvísi en svo að Lilja kalli eftir afsögn fjármálaráðherra

Innrás Rússlands í Úkraínu hefur verulega styrkt samvinnu Vestrænna ríkja

Innrás Rússlands í Úkraínu hefur verulega styrkt samvinnu Vestrænna ríkja. Þetta á einkum við um samvinnu í öryggis- og varnarmálum innan NATO og ESB en efnahagsleg samvinna ríkjanna er einnig að aukast. Innrásin er líkleg til að auka til muna samvinnu ríkja Evrópusambandsins á öllum þessum sviðum í nánustu framtíð. Öll þau áföll sem ríki sambandsins hafa orðið fyrir á liðnum árum hafa stuðlað að nánari samvinnu þeirra á milli í þeim málaflokkum sem áföllin hafa náð til. Svar ríkjanna við áföllum er ætíð að samvinna skili meiri árangri en sundrung. Auk þess sem fátt stuðlar að nánari samstöðu en sameiginlegur óvinur. Bæði NATO og ESB voru fyrst og fremst stofnuð á sínum tíma til að verjast Sovétríkjunum.

Meira hér: Silfrið, 3. apríl, 2022

Ask An Expert: What Would NATO Expect Of Iceland In Wartime?

The Grapevine asked Baldur Þórhallsson, Professor of Political Science and Research Director of the Centre for Small State Studies at the University of Iceland, this question:

“If the war in Ukraine expands to involve conflict with NATO, how would Iceland be expected to contribute as a member state?”

Iceland is well-known internationally for being a state with no armed forces. “There’s no appetite for an Icelandic army,” says Baldur. “It’s something that Icelanders tend to be very proud of. And we wouldn’t even know how to run an army. It is much better and safer to rely on the forces of our allies.”

So—other than the obvious financial methods—how could Iceland contribute to any NATO war effort? The security zone at Keflavík Airport is already used by member states conducting airborne and marine reconnaissance for the organisation, and could be used as a transport and logistics hub linking European operations to North America. “And you could locate a temporary hospital here, for soldiers or civilians, if you didn’t want to have it on the European continent,” Baldur observes.

Peacekeeping and protecting infrastructure

Given the fact that enemy internet infrastructure is now likely to be a high-profile wartime target, Icelandic digital security expertise could form part of NATO’s defences, Baldur suggests. And medical, police and communications functions, which have traditionally been at the core of Icelandic foreign peacekeeping missions, could also come into play. “Iceland contributed to the policing of Kabul airport, and the airport in Kosovo,” says Baldur, “and is already sending people to work in communications for NATO in the Baltic states.”

But what about the possibility of fighting forces using Iceland as a base? About this, Baldur is quite matter of fact.

“You don’t want to be seen as the weakest link. And if there is no permanent military base in Iceland, you might be seen by the enemy as the weakest link. That might lead to a request, during wartime—by the Icelandic government to NATO—for a permanent military base here.”

 

Ísland má ekki vera veikasti hlekkurinn í Atlantshafsbandalaginu

Innlegg Baldurs hefur vakið mikla athygli og viðbrögðin hafa ekki látið standa á sér standa. Sitt sýnist hverjum af kommentakerfunum að dæma, þar sem margir hafa tekið til máls og ýmist lýst sig fylgjandi þessum hugmyndum Baldurs eða gagnrýnt þær harðlega.

Þegar sjónum er beint að umræðuhefðinni, sem Baldur segir í pistli sínum að hafi hingað til einkennst af vissri þögn og undanfærslu, tekur Baldur eftir því að þó svo enn eimi eftir af þeim sjónarmiðum, að við þurfum ekki svo mikið að ræða varnar- og öryggismál, hafi hann orðið þess var að landsmenn virðast móttækilegri fyrir umræðunni en áður.

„Markmiðið með pistlinum hafi verið að vekja athygli á mikilvægi þess að Íslendingar fari inn í þessa umræðu, sem hefur ekki verið að eiga sér stað hér á landi, en hefur verið að eiga sér stað á hinum norðurlöndunum undanfarna mánuði.”

Meira hér .

Hvernig má styrkja varnir Íslands?

Eftirfarandi greining er til þess að vekja fólk til umhugsunar um hvað það feli í sér að enn er engin formleg föst viðvera varnarliðs hér á landi. Eru þeir stjórnmálaflokkar sem eru fylgjandi aðild Íslands að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin búnir að sætta sig við ákvörðun Bandaríkjanna um að ekki sé varanleg viðvera varnarliðs hér á landi?

Lítil ríki eins og Ísland og veik stór ríki eins og Úkraína þurfa á níu atriðum að halda til að tryggja fullveldi og sjálfstæði sitt:
1. Ísland og Úkraína eiga allt sitt undir því að vera í pólitísku skjóli voldugra ríkja eða ríkjabandalaga. Löndin tvö hafa ekki burði til að verja sig sjálf. Þess vegna gekk Ísland á sínum tíma í NATO og Úkraína sækist eftir aðild að bandalaginu.
2. Lítil ríki eru sjálfstæð vegna stefnu stórra ríkja að þola tilvist þeirra. Lög og viðmið í alþjóðakerfinu sem stóru ríkin, sigurvegarar í seinni heimsstyrjöldinni, settu að henni lokinni hafa verið hagstæð litlum ríkjum. Smáríkjum fer stöðum fjölgandi þar sem voldug ríki veigra sér við í meira mæli en áður að brjóta á sjálfsákvörðunarrétti þjóða. En lög og reglur eru eitt og raunveruleiki alþjóðastjórnmála annað. Allur gangur er til dæmis á því hvort að ákvæði og viðmið alþjóðasamfélagsins á yfirlýstri hlutleyisstefnu ríkja séu virt. Stórveldin virtu til dæmis að vettugi hlutleysisstefnu Íslands, Noregs, Danmerkur og Finnlands í seinni heimsstyrjöldinni.
3. Lykilatriði í utanríkisstefnu lítils ríkis er að koma í veg fyrir að verða fyrir árás óvinveittra aðila. Ríki geta orðið fyrir margskonar árásum eins og netárásum, hryðjuverkaárás, klippt sé á sæstrengi eða beinni innrás herafla. Fagurgali á tyllidögum um stuðning hefur takmarkaða þýðingu þegar áföll ríða yfir og öll ríki hugsa fyrst og fremst um að eigin hagsmuni. Veikburða ríkja þurfa á skriflegum skuldbindingum stærri ríkja eða ríkjabandalag að halda um að þau komi þeim til varnar. Þannig skuldbindingar þarf að gera á friðartímum áður en að áfall skellur á.
4. Grunnvallaratriði í varnarstefnu veikburða ríkja felst í fælingarstefnu, það er að fæla utanaðkomandi aðila frá því að ráðast á ríkið. Fælingarstefna stórveldanna í kalda stríðinu, það er að hóta að beita kjarnorkuvopnum, gerði það líklega að verkum að heraflar þeirra lentu aldrei í beinum hernaðarátökum og kjarnorkuvopnum var ekki beitt. Sovétríkin réðust ekki inn í smáríki í NATO og Bandaríkin réðust ekki inn í smáríki og veikburða ríki í næsta nágrenni Sovétríkjanna sem þau töldu að væru á yfirráðasvæði sínu.
5. Hér á landi birtist fælingarstefnan í fastri viðveru bandarískra hermanna á landinu. Herstöðinni var ætlað að fæla ráðamenn í Kreml frá því að ráðast á landið. Í dag á aðild Íslands að NATO og varnarsamingurinn við Bandaríkin að fæla óvinveitt ríki eða aðila frá því að ráðast á landið.
6. Ef að veikburða ríki verður hins vegar fyrir árás, er lífsspursmál fyrir það að fá þegar í stað aðstoð utankomandi aðila sem getur hrint árásinni. En samkvæmt fræðunum vantar Íslandi mikilvægt atriði til viðbótar við varnarsamninginn og aðildina að NATO.
7. Föst viðvera öryggissveita eða herafla frá aðildarríkjum NATO er forsenda þess að fæla óvinveittan aðila frá því að ráðast á landið. Líklega þarf ekki nema áhöfn eins kafbáts eða einnar lúxussnekkju rússnesks auðjöfurs - sem lóna fyrir utan hafnir landins öll sumur - til að taka yfir helstu stofnanir landsins. Skyndiárásum verður að vera hægt að bregðast við þegar í stað. Hætt er við að sérsveit ríkislögreglustjóra geti ekki lengi varist innrás hersveitar þó að lítil sé. Öflugar varnarsveitir verða að vera til staðar. Það getur verið of seint eða mjög dýrkeypt að bregðast við að nokkrum klukkustundum liðum þegar helstu stofnanir landsins eru komnar í hendur óvinasveitar.
8. Í tengslum við loftrýmis- og kafbátaeftirlit yfir Íslandi skiptast bandalagsríki NATO (auk Svíþjóðar og Finnlands) á að vera með tímabundna viðveru á öryggissvæðinu í Keflavík. Aukin viðvera tengist auknum áhyggjum þeirra og þá sérstaklega Bandaríkjanna af framtíðaráformum rússneskra og kínverskra stjórnvalda á Norðurskautinu. Viðvera herafla eða loftrýmis- og kafbátaeftirlitsins er ekki föst að nafninu til en spurning hvort að hún sé það í raun. Á tímabilinu frá 2014 til 2017 var tímabundinni viðveru hermanna þannig háttað að hver sveitin tók við af annarri þannig að um stöðuga viðveru hermanna var að ræða. Þessi staðreynd virðist vera nokkuð feimnismál á stjórnarheimilinu og í raun ekki mikið rædd almennt. Samkvæmt íslenskum stjórnvöldum og bandalagsríkjunum er ekki um fasta viðveru herafla að ræða. Ef viðvera herafla er í rauninni föst þá er hér um tvískinnung að ræða. Tvískinnung sem er alvarlegri en í fyrstu virðist. Það að viðurkenna ekki opinberlega nær stöðuga viðveru varnarliðs á vellinum eða koma ekki á formlegri fastri viðveru varnarliðs dregur úr þeim fælingarmætti sem aðildin að NATO og varnarsamingurinn við Bandaríkin felur í sér. Þannig myndi föst viðvera varnarliðs fæla óvinasveitir frá árás.
9. Að lokum, ráðamenn hins vestræna heims gleymdu sér í gleðinni yfir hruni Sovétríkjanna. Mikilvægi fælingarstefnunnar gleymdist en hún var lykillinn að sigri vestrænna ríkja í kalda stríðinu. NATO-aðildin, varnarsamingurinn við Bandaríkin og föst viðvera varnarliðs var ætíð hryggjarstykkið í utanríkisstefnu Íslands. Fæla skyldi óvininn frá því að ráðast á landið og bregðast við þegar í stað ef kæmi til innrásar. Nú hefur rússneski björninn vaknað úr dvala. Það kallar á að látið verið af þeim tepruskap sem einkennir umræðuna um varnarmál hér á landi. Ræða þarf mikilvægi fælingar og varnarstefnu Íslands.


Meira hér: Föst viðvera herliðs á Íslandi hafi fælingarmátt

Rússar ráðast á það sem gerir sjálfstæði Íslands mögulegt

Eftirfarandi er grein sem birtist í Stundinni, þann 25. febrúar 2022 (Jón Trausti Reynisson).


Mótmælendur í Edinborg Mótmælendur komu saman í Skotlandi í gær, líkt og í öðrum Evrópuríkjum. MYND: AFP

Vla­dimir Pútín hef­ur kom­ist upp með of margt, seg­ir Bald­ur Þór­halls­son stjórn­mála­fræðing­ur, sem sér­hæf­ir sig í stöðu smáríkja, eins og Ís­lands, sem er ógn­að af breyttri heims­mynd Pútíns.

Sjálfstæði Íslands og annarra smáríka byggir á því heimskerfi sem Rússar ráðast gegn með innrás sinni í Úkraínu. Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í stöðu smáríkja, segir að þeirri heimsmynd sé ógnað með framferði Rússa.

„Nú þegar rússnesk stjórnvöld endanlega sýna fram á að þau virða einskis sjálfsákvörðunarrétt ríkja, þá eru öryggismál í Evrópu komin í uppnám,“ segir Baldur í samtali við Stundina. „Sérstaklega fyrir smáríki - sem byggja tilverurétt sinn á vilja stórra ríkja til þess að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi þeirra - vegna þess að hernaðarlega og efnahagslega eru stór ríki miklu öflugri heldur en smærri og geta valtað yfir þau ef þau vilja gera það.“

Tilvist smáríkja byggir á viðhorfi
Baldur segir tilvist smáríkja, eins og Íslands sem hefur verið sjálfstætt frá seinna stríði, byggja á grundvallarviðhorfi sem var innleitt eftir að bandamenn sigruðust á Adolf Hitler og öðrum einræðisherrum í Seinni heimsstyrjöld.


Baldur Þórhallsson Hefur gagnrýnt íslenska sérfræðinga í málefnum Úkraínu, sem sögðu stríð ekki yfirvofandi. „Smáríki eru í rauninni til vegna vilja stórra ríkja að viðurkenna þau. Lög og grundvallarviðmið í núverandi alþjóðakerfi byggja á sjálfsákvörðunarvaldi þjóða. Sjálfstæði og fullveldi ríkja, eru grundvöllur fyrir tilvist smáríkja. Þetta lagalega umhverfi, sem sett var á fót, innan Sameinuðu þjóðanna, eftir síðari heimsstyrjöld, hefur gert það að verkum að smáríkjum í heiminum hefur stórfjölgað. Vegna þess að stór ríki eru viljug til að viðurkenna þetta grundvallarviðmið sem er ríkjandi í alþjóðakerfinu.“

„Smáríki eru í rauninni til vegna vilja stórra ríkja að viðurkenna þau.“
Baldur vill ekki ganga svo langt að segja ástandið beina ógn við stöðu Íslands. „Öryggi borgara Nató-ríkja er ekki ógnað með beinum hætti. Vegna þess að Nató ætlar ekki að verja Úkraínu. Hvort þessi átök vindi upp á sig og það geti orðið mistök og menn lendi í átökum, það er næsta skref. Í augnablikinu lítur ekki út fyrir að þessi átök breiðist út fyrir landamæri Úkraínu. En eigi að síður, þrátt fyrir það er þetta ógn við öryggiskerfi Evrópu sem mótað var eftir Seinni heimsstyrjöld og fall Sovétríkjanna. Öllum þeim ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu, sem ekki hafa gengið í Nató, stendur bein ógn af Rússlandi. Ef Rússland vill taka þau yfir hernaðarlega og með valdi, þá mun það gera það.“


Pútín líkt við Hitler Mótmælendur fyrir utan byggingu Nató í Haag í Hollandi líktu Pútín við Adolf Hitler, eins og gert var víða annars staðar. MYND: AFP

Íslendingar reyndu að hætta við refsiaðgerðir
Íslenskir stjórnmálamenn hafa tekið seinna við sér en flestir evrópskir í aðdraganda þess að Vladimir Pútín fyrirskipaði innrás í Úkraínu. Þannig heyrðist ekkert frá forsætisráðherra Íslands fyrr en innrásin var orðin að veruleika.

Baldur segir íslensk stjórnvöld hafa reynt að bakka út úr refsiaðgerðum sem settar voru á Rússa eftir að þeir innlimuðu Krímskaga. 


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Ríkisstjórn Sigmundar vildi hætta refsiaðgerðum gegn Rússum. MYND: AFP

„Stjórnvöld íhuguðu mjög gaumgæfilega 2015 að hætta að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Bandaríkin mótmæltu harðlega og við hættum við,“ segir hann.

Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, lýsti því nýlega í hlaðvarpsviðtali að hann hefði reitt Vladimir Pútín til reiði á fundi, þannig að hann auðsýndi andstöðu sína með því að losa skóþveng sinn, en þá hafði Guðlaugur reynt að benda Pútín á að setja ekki innflutningsbann á íslenskt sjávarfang, heldur fremur evrópskan iðnað.

Baldur bendir á að Íslendingar fylgi Evrópusambandinu í yfirlýsingum nánast í einu og öllu. „Ísland tekur þátt í pólitískum yfirlýsingum Evrópusambandsins út af viðauka í EES-samningnum. Þetta þýðir á mannamáli að Ísland fylgir Evrópusambandinu eftir í utanríkismálum. Íslenskir ráðamenn hins vegar vilja ekkert tala um þetta. Sérstaklega þeir sem eru andsnúnir aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

„Við tökum þátt í 97% svokölluðum pólitískum yfirlýsingum frá Evrópusambandinu.“
Baldur hefur greint þetta. „Við tökum þátt í 97% svokölluðum pólitískum yfirlýsingum frá Evrópusambandinu. Þegar við gerum það ekki þá er það yfirleitt vegna tæknilegra mistaka. Það á að vera samráð um þetta, en samráðið er ekki neitt. Við fáum bara sent með skeyti hver yfirlýsingin á að vera og yfirleitt segjum við bara já. Mér finnst að Ísland, Noregur og Liechtenstein eigi að fara fram á það að það sé alvöru pólitísk samræða á milli og Íslendingar fái að taka þátt í viðræðum um hvaða viðskiptaþvinganir eigi að setja, á Rússland til dæmis, vegna þess að við munum taka þátt í þeim.“


Þrír forsetar Vladimir Pútín Rússlandsforseti, Volodomyr Zelensky Úkraínuforseti, og Biden Bandaríkjaforseti. Zelensky er nú umsetinn rússneska hernum í höfuðborginni Kyiv. MYND: AFP

Pútín hefur komist upp með þetta
Tilkynnt hefur verið um refsiaðgerðir gegn stærstu bönkum Rússlands og nokkrum auðmönnum, ásamt útflutningsbanni á tilteknum tæknivörum til Rússlands.

Baldur segir að refsiaðgerðir hafi litlar afleiðingar, nema helst fyrir lítil ríki. „Sagan og rannsóknir sýna að viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir Bandaríkjanna virka helst gegn litlum ríkjum í Afríku og Mið- og Suður-Ameríku.“

Þær refsiaðgerðir sem nú hafa verið boðaðar nægja ekki, að mati Baldurs. Útiloka þurfi rússneskt fjármálakerfi að fullu frá vestrænum löndum. Bæði Frakkar og Bretar hafa nú sagst reiðubúnir að útiloka Rússa frá alþjóðlega greiðslukerfinu SWIFT.

Að hans mati er ástæðan fyrir því að Pútín gengur stöðugt lengra einfaldlega sú að hann hefur komist upp með svo margt.

„Hann gengur sífellt lengra. Ég held að það spili inn í klárlega að honum er ekki veitt nægilega mikil viðspyrna,“ segir hann. Spurður hvað ætti að gera segir Baldur: „Til dæmis ef rússnesku bankarnir og ríkið hefðu verið útilokuð frá þátttöku í fjármálamarkaði vestrænna ríkja, það hefði kannski geta bitið. Þá værum við hugsanlega ekki í þeirri stöðu sem við erum í dag. Menn voru ekki viljugir til að ganga þetta langt.“

Baldur tekur annað dæmi. „Hann hefur alltaf komist upp með þetta. Mér finnst besta dæmið varðandi Ólympíuleikana. Rússnesk stjórnvöld standa fyrir umfangsmesta svindli í íþróttum sem sést hefur, þegar þegar þeir brutust inn á eftirlitsstofur með lyfjanotkun íþróttamanna og skiptu um blóðglös með eitruðu blóði rússneskra íþróttamanna og létu eitthvað saklaust í staðinn. Og hver er refsingin? Jú, að þeir keppa undir öðru nafni á Ólympíuleikunum. Mér finnst þetta lýsandi fyrir viðbrögð heimsins við sífelldum brotum rússneskra stjórnvalda á lögum og reglum og viðmiðum og normum. Þeir bara komast upp með þetta, rétt eins og núna, munu komast upp með að taka Úkraínu með valdi.“

Forsetar án takmarkana
Pútín vill verða forseti til 2034, Xi Jinping, forseti Kína, hefur fengið tveggja kjörtímabila hámarksvaldatíma forseta afnuminn og getur því verið við völd án takmarkana. Þeir hittust á fundi fyrir um þremur vikum. MYND: AFP

Austurblokk með Asíurisunum
Önnur fjölmennustu ríki heims hafa ekki tekið undir þá túlkun að Rússar séu í órétti í Úkraínu. Fulltrúi Kínverska utanríkisráðuneytisins gaf til kynna að heimsmynd Kínverja sé önnur en Vesturveldanna. Kínverjar, sem telja 1,44 milljarða manna, hafa ekki viljað taka afstöðu gegn innrás Rússa í Úkraínu og þvert á móti neitað að skilgreina árásina sem „innrás“. Indverjar, á sama tíma, taka ekki þátt í refsiaðgerðum og leita leiða til að eiga bein viðskipti við Rússa með rupee, gjaldmiðli Indlands, þar sem refsiaðgerðir ná til dollara, evru og jena.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi í gær að helmingur heimshagkerfisins tæki þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum, nánar til tekið rússneskum bönkum og tilteknum fjölda rússneskra auðmanna, ásamt útflutningsbanni á tæknivörum. Eftir stendur að hinn helmingur heimsins stendur Rússum opinn.

Spurður hvort hann telji að Rússar muni halla sér upp að Kínverjum í auknum mæli, segist Baldur ekki vera í nokkrum vafa. „Já, þeir munu gera það. Þeir í rauninni neyðast til að gera það. Þetta mun ekki hafa áhrif á viðskiptin við Kína nema bara auka það. Indverjar munu líklega ekki heldur taka þátt í refsiaðgerðunum. Rússar hafa fjölda ríkja í Miðausturasíu, í Afríku og jafnvel í Suður-Ameríku, sem þeir geta átt viðskipti við. Það að skrúfa fyrir gas- og olíuútflutning frá Rússlandi til Evrópu mun ekki skila miklu. Þeir munu auðveldlega finna nýja markaði. Það eru svo mörg ríki sem munu ekki taka þátt í þessu. Og fyrir utan það, þessar aðgerðir koma alltof seint. Ef eitthvað gæti virkað þá væri það helst að loka alveg á rússneska fjármálamarkaðinn og aðgang rússneskra stjórnvalda að fjármagni í Vestur-Evrópu. Það er það eina sem ég sé fyrir mér að gæti virkað, en að því sögðu, þá hafa þeir aðgang að Kína og Indlandi. Og viðskipta- og refsiaðgerðir munu ekki hafa nein áhrif á það sem er að gerast á jörðu niðri í Úkraínu núna.“

Tveir skólar: Að einangra eða tengjast
Spurður hvort það verði alltaf metið réttlætanlegt að eiga frjáls viðskipti við einræðisríki segir Baldur tvo meginskóla hafa verið ríkjandi. „Annars vegar að eiga engin samskipti við einræðisríki og einangra þau. Eða eiga sem mest viðskipti þau, menningar-, mennta- og íþróttasamskipti, og reyna þannig smám saman að fá þau til að taka upp þau gildi og viðmið sem viðurkennd eru á Vesturlöndum hvað mannréttindi og lýðræði varðar. Þessir skólar takast endanlaust á Vesturlöndum.“

Norræn ríki hafa nú farið fram á að Rússum verði haldið frá Evróvisjón-keppninni og þegar hefur verið ákveðið að úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu verði færður frá Pétursborg, uppeldisborg Vladimirs Pútín, til Parísar.


Biðja um flugbann Úkraínskur mótmælandi í Belgíu biður Nató að framfylgja flugbanni yfir Úkraínu. Nató hefur ekki í hyggju að skipta sér af. MYND: AFP

Öllu snúið á hvolf
Úkraínsk stjórnvöld hafa lýst áhuga á að ganga í Nató og hafa áform um formlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu árið 2024. Varðandi þá Íslendinga, kínversk stjórnvöld og aðra sem segja Pútín einfaldlega vera að verja sitt öryggissvæði með innrásinni í Úkraínu, segir Baldur öllu snúið á hvolf.

„Að mínu mati er þarna hlutunum alveg snúið á haus. Vegna þess að það hefur verið þannig eftir fall Berlínarmúrsins og fall Sovétríkjanna að þau ríki sem losnuðu undan járnhæl kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu, hafa flestöll verið að sækja um aðild að Nató og Evrópusambandinu. Nató og Evrópusambandið var mjög tregt í fyrstu að hleypa þeim inn. Það var andstaða, bæði meðal Bandaríkjastjórnar og flestra ríkja Nató, við að hleypa þeim inn til að byrja með, á fyrri hluta 10. áratugarins, vegna þess að menn áttuðu sig alveg á því að með því að hleypa þeim inn, þá væri Nató að færast til austurs og að rússnesk stjórnvöld myndu líta á það sem ögrun og þeir myndu líta á það sem ógn. En vegna þrábeiðni þessara þjóða í Mið- og Austur-Evrópu, sem nákvæmlega bentu á að ríki ættu að ráða sér sjálf og haga sinni utanríkisstefnu þannig, og að dyr Nató og Evrópusambandsins ættu að standa þeim opnar. Frumkvæðið að þessu kemur alfarið frá þessum sjálfstæðu og flestum litlu ríkjum í Austur-Evrópu, sem eru að leita í skjól frá rússneska birninum.“


Viðurkennir sjálfstæði Donbass-héraða
Vladimir Pútín sagðist ekki ætla að fyrirskipa innrás í Úkraínu, þegar hann stillti upp hernum við landamærin. Síðar tilkynnti hann að hann viðurkenndi sjálfstæði Luhansk- og Donetsk-héraða. Um leið sagðist hann senda friðargæslulið til héraðanna. Í kjölfarið fyrirskipaði hann „sértækar aðgerðir“, sem nú birtast í því að hermenn hans eru komnir í höfuðborg Úkraínu. MYND: AFP

Nató-ríkin eru veik
Baldur telur að ástæða þess að Pútín lætur til skarar skríða núna sé að hann sá að síðar yrði það of seint.

„Hvers vegna er hann að þessu núna? Það tengist að í vaxandi mæli hefur Úkraína verið að þrýsta á aðild að Nató. Stjórnvöld í Úkraínu hafa í vaxandi mæli verið að þrýsta á það. Stjórnvöld í Kreml sjá ekki fram á að Úkraína ætli að snúa sér frá vestrinu. Það er núna eða aldrei.

Númer tvö. Stóru ríkin í Nató eru veikari en þau hafa oft verið. Hvernig Bandaríkin skildu við Afganistan, plús innanlandsátök í Bandaríkjunum og minni vilji í Bandaríkjunum til að skipta sér af hernaðarlega málefnum erlendis, gera þau veikari.“

Þannig sé Bretland veikara eftir Brexit, Boris Johnson í vandræðum pólitískt og innanflokks, Macron Frakklandsforseti á leið í erfiðar kosningar í apríl og ný ríkisstjórn í Þýskalandi enn að fóta sig. „Olaf Sholz er engin Merkel,“ segir hann.

Kína fylgist með
Veikari Vesturlönd og árangur Pútíns getur haft áhrif inn í framtíðina, á hinn raunverulega keppinaut Vesturlanda: Einræðisríkið Kína.

„Ég held að Kína horfi vökulum augum á hvernig brugðist verður við allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu, til þess að meta hversu langt þeir geta gengið sjálfir annars staðar, eins og til dæmis gagnvart Taívan.“

Bandaríkin hafa stutt Taívan hernaðarlega, án þess að viðurkenna sjálfstæði ríkisins. Kínverjar hafa beitt hörðum refsiaðgerðum gegn hverjum þeim sem tekur upp samskipti við Taívan eða viðurkennir ríkið með nokkrum hætti.

„Valdasamkeppnin í framtíðinni verður á milli Vesturlanda og Kína.“
„Rússland er ekki svipur frá sjón borið saman við Sovétríkin. Við getum ekki borið saman deilur Rússlands við Nató við Kalda stríðið. Við eru ekkert komin í þannig stöðu. Rússland er miklu veikara en Sovétríkin voru. Kína er nýja heimsveldið sem Bandaríkin eru að fara að keppa við, og í rauninni líka Evrópa, bæði pólitískt og efnahagslega. Þannig að valdasamkeppnin í framtíðinni verður á milli Vesturlanda og Kína.“

Þannig gæti innrásin í Úkraínu þvingað fram breytta afstöðu milli vesturs og austurs. Það er einmitt Kalt stríð sem er efnið í leiðara New York Times í dag, þar sem bent er á að þær raddir hafi heyrst í kínverskum fjölmiðlum að Kínverjar þurfi að gefa Rússum tilfinningalegan og siðferðislegan stuðning, án þess að stíga á tær Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, vegna þess að Kína muni þurfa stuðning Rússa þegar kemur að Taívan.

Baldur telur að spurningin sé hvort verði ofan á, aflsmunur einræðisríkja, eða lýðræðisríki sem verndi smáríki eins og Ísland. „Þessum grundvelli fyrir tilvist smáríkja, þeim bát er ruggað með þessu. En það hefur ekki orðið grundvallarbreyting á þessu í alþjóðakerfinu engu að síður. Það þarf meira að gerast til þess.“

Ísland þarf að hafa áhyggjur af netárásum Rússa

,,Baldur Þórhallsson, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands, segist ekki trúa því að Íslendingum stafi bein ógn af Rússum nema þá í formi netárása sem hann segir að geti verið mjög umfangsmiklar.
„Ég held að við þurfum að hafa áhyggjur af netárásum. Við erum náttúrulega í Atlantshafsbandalaginu. Við erum að styðja Úkraínsk stjórnvöld. Íslensk stjórnvöld hafa talað með mjög skýrum hætti þannig að við þurfum að gæta að netöryggi sem framast er unnt,“ sagði Baldur í samtali við Ísland vaknar í morgun.
Bætti hann við að mikilvægt væri einnig að huga vel að öryggismálum í kringum rússneska sendiráðið til að tryggja öryggi mótmælenda fyrir utan sendiráðið." Úr viðtali í Ísland Vaknar á K100.